Fréttir

Myndband: Berger sigraði á Pebble Beach
Daniel Berger. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 14. febrúar 2021 kl. 23:38

Myndband: Berger sigraði á Pebble Beach

Bandaríkjamaðurinn Daniel Berger sigraði í dag á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu sem fram fór á PGA mótaröðinni á Pebble Beach vellinum.

Berger, sem hóf daginn tveimur höggum á eftir Jordan Spieth, lék lokahring mótsins á 7 höggum undir pari og fagnaði að lokum tveggja högga sigri eftir mikla spennu.

Fyrir lokaholuna hafði Maverick McNealy jafnað við Berger á samtals 16 höggum undir pari en Berger gerði sér lítið fyrir og setti niður langt pútt fyrir erni á 18. holu og gulltryggði þar með sigurinn á 18 höggum undir pari.

Þetta er fjórði sigur Berger á ferlinum og annar sigurinn hans á síðustu 8 mánuðum. Hann á enn eftir að sigra á risamóti en er til alls líklegur þegar Masters mótið fer fram í apríl.

Jordan Spieth og Patrick Cantlay enduðu jafnir í 3. sæti á 15 höggum undir pari og hefur Spieth nú endað á meðal 4 efstu í tveimur mótum í röð.

Nate Lashley og Paul Casey enduðu í 5. sæti á 14 höggum undir pari. Lashley var í forystu þegar þrjár holur voru eftir af lokahringnum en gerði þá slæm mistök og fékk þrefaldan skolla á 16. holu sem gerði út um hans möguleika.

Sigrar Berger á PGA mótaröðinni:

2016: FedEx St. Jude Classic
2017: FedEx St. Jude Classic
2020: Charles Schwab Challenge
2021: AT&T Pebble Beach Pro-Am

Hér er hægt að sjá lokastöðuna.