Fréttir

Myndband: DeChambeau tók sér rúmar tvær mínútur í eitt högg
Bryson DeChambeau.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. ágúst 2019 kl. 09:27

Myndband: DeChambeau tók sér rúmar tvær mínútur í eitt högg

Bryson DeChambeau hefur oftar en einu sinni komist í fréttirnar fyrir hægan leik en þessi frábæri kylfingur á það til að pæla meira í hlutunum en aðrir.

Myndband þar sem DeChambeau tekur sér rúmlega tvær mínútur til að pútta eitt pútt á Northern Trust mótinu í gær hefur farið eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum og hafa til að mynda aðrir kylfingar á mótaröðinni látið DeChambeau heyra það fyrir atvikið.

Taka skal fram að samkvæmt reglum R&A er hámarks tími fyrir högg 40 sekúndur en enn á ný hefur DeChambeau komist upp með að nota meiri tíma án þess að fá fyrir það víti.

Tommy Fleetwood og Justin Thomas voru með DeChambeau í holli og virtust þeir ekki hafa gaman af því að bíða. 

Meðal þeirra sem hafa látið DeChambeau heyra það eru Lee Westwood, Eddie Pepperell, Ian Poulter og Luke Donald. Hér fyrir neðan má sjá púttið sem og viðbrögð félaga hans á mótaröðinni.