Fréttir

Myndband: Fékk draum sinn uppfylltan og lék á háværustu holu PGA mótaraðarinnar
Amy og Gary Woodland
Fimmtudagur 31. janúar 2019 kl. 11:49

Myndband: Fékk draum sinn uppfylltan og lék á háværustu holu PGA mótaraðarinnar

Waste Management Phoenix Open mótið hefst á PGA mótaröðinni í dag. Leikið er á TPC Scottsdale vellinum að vanda og er það ein hola sem er aðeins þekktari en aðrar á þeim velli.

16. holan er oft kölluð sú háværasta á mótaröðinni enda eru áhorfendapallar allt í kringum holuna og mæta tugþúsundir manna á hverjum degi bara til að sjá þessa einu holu.

Gary Woodland og Matt Kuchar voru að leika æfingahring í gær. Þegar þeir mættu á holuna fengu þeir ungan aðdáanda til að leika með sér holuna. Amy Bockerstette er í menntaskóla og er með Downs heilkenni en er samt mikill golfari.

Hún fékk draum sinn uppfylltan og fékk að leika eina holu með þeim félögum og stóð sig með eindæmum vel. Bæði Woodland og Kuchar voru yfir sig hrifnir enda lék Amy holuna á pari þrátt fyrir að nokkur þúsund manns hafi verið að horfa.

Myndband má sjá hér að neðan.