Fréttir

Myndband: Fyrsti sigur English í tæp 8 ár
Harris English. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 11. janúar 2021 kl. 10:19

Myndband: Fyrsti sigur English í tæp 8 ár

Bandaríkjamaðurinn Harris English sigraði á sunnudaginn á Sentry Tournament of Champions mótinu sem fór fram á PGA mótaröðinni í golfi. Þetta er fyrsti sigur English á mótaröðinni í tæp 8 ár en hann sigraði síðast í nóvember árið 2013.

Leikið var á Kapalua vellinum á Havaí um helgina og spilaðist völlurinn nokkuð auðveldur en alls léku 9 kylfingar á 20 höggum undir pari eða betra skori.

Eftir fjóra hringi voru þeir Harris English og Joaquin Niemann jafnir á 25 höggum undir pari og héldu því í bráðabana um sigurinn. English átti tækifæri á sigri á 72. holu en stutt pútt fyrir erni fór fram hjá.

Á fyrstu holu bráðabanans fékk English fugl sem dugði til sigurs. Hann hefur nú sigrað á þremur mótum á PGA mótaröðinni og er kominn í 17. sætið á heimslistanum sem er hans besta staða frá upphafi.

Líkt og heiti mótsins ber til kynna, Sentry Tournament of Champions, fengu sigurvegarar síðasta árs boð í mótið. Á þessu var þó gerð undantekning í ár vegna Covid-19 og komst English þar með inn í mótið sem einn af þeim 30 efstu á stigalista mótaraðarinnar á síðasta tímabili.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

1. Harris English, -25
2. Joaquin Niemann, -25
3. Justin Thomas, -24
4. Ryan Palmer, -23
5. Xander Schauffele, -21
5. Sungjae Im, -21