Fréttir

Myndband: McIlroy kominn upp í toppbaráttuna eftir frábæran hring
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 21. september 2019 kl. 12:03

Myndband: McIlroy kominn upp í toppbaráttuna eftir frábæran hring

Eftir hræðilega byrjun á BMW PGA meistaramótinu er Norður-Írinn Rory McIlroy búinn að blanda sér í toppbaráttuna í mótinu þegar flestir kylfingar eru farnir af stað á þriðja keppnisdegi.

Eins og Kylfingur greindi frá á fimmtudaginn var McIlroy heppinn að falla ekki úr leik í gær en hann var á höggi yfir pari eftir tvo hringi þrátt fyrir flottan endasprett.

Í dag lék McIlroy vel frá fyrstu holu, fékk sex fugla, einn skolla og einn örn sem kom á 12. holu Wentworth vallarins. McIlroy kom því inn á 7 höggum undir pari og er samtals á 6 höggum undir pari í mótinu.

Með hringnum hefur risameistarinn fjórfaldi komið sér upp um 48 sæti í mótinu og situr nú í 10. sæti þegar efstu menn eru farnir af stað á þriðja keppnisdegi. Alls hefur McIlroy unnið sig upp um 107 sæti frá því á fimmtudaginn þegar hann var í 117. sæti á 4 höggum yfir pari.

Takist McIlroy að byrja lokahringinn vel á morgun er aldrei að vita nema að hann nái að blanda sér í baráttu um sigur í mótinu en til þess þarf allt að ganga upp.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af frábæru innáhöggi hjá McIlroy á 11. holu þar sem hann fékk sinn fjórða fugl á hringnum.