Fréttir

Myndband: Wolff fékk þrjá erni á 5 holum
Matt Wolff.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. október 2020 kl. 08:40

Myndband: Wolff fékk þrjá erni á 5 holum

Skotinn Martin Laird og Bandaríkjamaðurinn Patrick Cantlay eru í forystu eftir þrjá hringi á Shriners Hospitals for Children Open sem fer fram á PGA mótaröðinni í golfi.

Laird og Cantlay eru báðir á 20 höggum undir pari eftir hringina þrjá en þeir eiga það einnig sameiginlegt að hafa spilað tvo hringi á 65 höggum og einn á 63 höggum.

Tveimur höggum á eftir þeim Laird og Cantlay eru fjórir Bandaríkjamenn; Matthew Wolff, Wyndham Clark, Brian Harman og Austin Cook.

Wolff lék þriðja hringinn á 61 höggi eða 10 höggum undir pari sem er besti hringur mótsins til þessa. Wolff var í ótrúlegu stuði á seinni níu holunum en hann lék þær á 28 höggum. Á holum 11-15 fékk Wolff þrjá erni og var ekki langt frá því að bæta við fjórða erninum á 16. holunni, hreinlega mögnuð spilamennska.

Myndband af því besta hjá Wolff má sjá hér fyrir neðan.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu. Fjórði og síðasti hringur mótsins fer fram á sunnudag.