Fréttir

Nær Westwood loksins að vinna risamót?
Lee Westwood slær hér úr glompu á 2. holu Augusta National.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 6. apríl 2021 kl. 10:49

Nær Westwood loksins að vinna risamót?

Líkt og Colin Montgomerie hefur Englendingurinn Lee Westwood oft verið talinn besti kylfingur allra tíma sem ekki hefur unnið risatitil. Miðað við hvernig hann hefur verið að spila síðustu mánuði getur það hins vegar breyst á Augusta National vellinum um helgina.

Westwood háði harða baráttu við Bryson DeChambeau bæði á Bay Hill og TPC Sawgrass völlunum í mars og sýndi það og sannaði að hann getur enn keppt við þá bestu í heimi.

Masters mótið hefur alltaf hentað Westwood vel en hinn 47 ára gamli Westwood veit hvernig á að spila Augusta þrátt fyrir að lengd vallarins ætti að gera honum erfitt fyrir.

Westwood varð stigameistari á Evrópumótaröðinni í fyrra og er á meðal 50 efstu á heimslistanum í dag. Hann er orðinn rólegri bæði innan sem og utan vallar og lítur út fyrir að njóta þess að spila golf með konuna sína á pokanum.

Rétt eftir stigameistaratitil Westwood í fyrra skrifaði blaðamaðurinn Rob Lee: „Það myndi ekki breyta öllu fyrir Lee að vinna risamót, hann hefur náð góðum árangri bæði sem einstaklingur og fyrir Evrópu í Ryder bikarnum, en risamót væri staðfesting á því hversu góður hann hefur verið allan ferilinn.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé of seint fyrir hann að vinna risamót núna. Hann er enn mikils metinn af keppinautum sínum um allan heim. Hann er magnaður kylfingur sem hefur átt magnaðan feril en ef ég gæti veitt honum eina ósk fyrir árið 2021 væri það að hann myndi vinna langþráðan risatitil.

Ég er alveg viss um að Westwood muni vera aftur í baráttu um sigur í risamóti, jafnvel oftar en einu sinni. Það er undir honum komið að komast yfir línuna en þú getur ekki afskrifað það.“

Verður Westwood í græna jakkanum á sunnudaginn? Við getum allavega ekki útilokað það.