Fréttir

Níu ára íslensk stúlka vekur athygli á Englandi
Miðvikudagur 5. mars 2014 kl. 07:00

Níu ára íslensk stúlka vekur athygli á Englandi

Guðrún Jóna Þorsteinsdóttir byrjaði ung að árum að slá í golfbolta þegar hún var að þvælast með móður sinni í vinnunni á Garðavelli á Akranesi – þá fjögurra ára gömul. Guðrún Jóna náði fljótt tökum á golfíþróttinni og hefur hún vakið athygli á Englandi fyrir hæfileika sína. Stúlkan er í dag 9 ára gömul og verður 10 ára í apríl á næsta ári. Hún stundar golfið af krafti í Brighton þar sem foreldrar hennar, María Guðrún Nolan og Þorsteinn Böðvarsson búa og starfa.

Árið 2011 varð Guðrún Jóna í þriðja sæti í keppni á vegum enska golfsambandsins sem kallast National Skills. Hún komst í úrslit á landsvísu eftir að hafa sigrað í sínum landshluta. Í fyrra endaði hún í öðru sæti í sínum landshluta í þessari keppni og komst ekki í úrslitakeppnina. 

Það verður nóg um að vera hjá Guðrúnu á þessu ári en hún er með 20,5 í forgjöf og er besta skor hennar af barnateigum (bláir) 45 högg.

María segir að Guðrún hafi mikinn áhuga á golfi og það hafi verið auðvelt að koma henni af stað þar sem að fjölskyldan sé á kafi í golfi. María er dóttir enska golfkennarans John Nolan sem starfaði hjá Golfklúbbi Reykjavíkur í nokkur misseri.

„Við höfum starfað við golfið undanfarin ár og leikið golf. Hún fór með mér ársgömul upp á golfvöllinn á Akranesi þar sem við vorum með veitingasöluna. Hún sló sitt fyrsta golfhögg fjögurra ára gömul og frá þeim tíma hefur hún verið mjög virk. Guðrún æfir með Junior Ladies Sussex þar sem að hún keppir einnig. „Það er mikið lagt upp úr því að þær kynnist öllum hliðum golfsins og viðhalda áhuga þeirra. Þær spila einu sinni í viku keppnisgolf, yfirleitt 9 holur.“

María segir að hugtakið fjölskylduíþrótt sé mun sterkara á Íslandi en á Englandi. „Það hefur verið dvínandi áhugi hjá stúlkum á golfi hér á Bretlandi og það hefur verið unnið að því markvisst að byggja þann áhuga upp á ný.“ María er framkvæmdastjóri á tveimur golfvöllum, Hollingbury og Waterhall, og Þorsteinn starfar á golfvöllunum við ýmis verkefni. 

„Það sem hefur háð golfinu hér á Bretlandi er að það hefur ríkt gamaldags hugsunarháttur. Hér höfum við tekið það besta úr því nýja og gamla og blandað því saman til að byggja upp yngri kylfinga. Krakkar fá sem dæmi að leika á sínum teigum í innanfélagsmótum en það er víða ekki þannig.

Það eru fleiri stúlkur sem æfa golf hér á Suður-Englandi en fyrir norðan. Meðalaldur kvenna sem stunda golf á Englandi er 60 ár og það er mikið áhyggjuefni hjá þeim sem stjórna golfsambandinu. Ungar konur eru ekki stór hópur þeirra sem stunda golf. Samt vantar ekkert upp á að golfkennslan er mjög góð og aðeins PGA-kennarar fá að starfa við kennslu og þjálfun. Við erum mjög ánægð hvernig haldið er utan um hlutina þar sem að Guðrún Jóna er að æfa,“ sagði María sem býr í Brighton en hún starfaði fyrst eftir að hún flutti frá Íslandi í Blackpool á Stanley Park vellinum.

„Það styttist í að Guðrún Jóna verði betri en við foreldrarnir. Það er mikið keppnisskap í henni og hún þolir illa að tapa fyrir okkur „gömlu hjónunum,“ sagði María Guðrún Nolan.