Fréttir

Nordic Golf: Haraldur endaði í þriðja sæti
Haraldur Franklín Magnús.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 23. ágúst 2019 kl. 10:50

Nordic Golf: Haraldur endaði í þriðja sæti

Lokadagur Esbjerg Open mótsins fór fram í dag en mótið er hluti af Nordic Golf mótaröðinni. Þeir Axel Bóasson og Haraldur Franklín voru báðir með og endaði Haraldur í þriðja sæti eftir hring upp á 71 högg. Axel lék á 74 höggum í dag og endaði jafn í 32. sæti.

Haraldur var í sjötta sæti fyrir lokadeginn á einu höggi yfir pari. Á lokhringnum var Haraldur komin tvö högg undir par eftir sjö holur og var þá kominn í annað sætið. Tveir skollar á 10. og 12 holunni kom honum aftur á parið og féll hann þá niður í þriðja sætið. Þar við sat og endaði hann hringinn á 71 höggi, eða pari vallar, og dugði það í þriðja sætið á samtals einu höggi yfir pari.

Fyrir daginn var Axel á níu höggum yfir pari í 43. sæti. Á hringnum í dag fékk hann einn skramba, þrjá skolla, tvo fugla og restina pör. Hann endaði því á þremur höggum yfir pari og mótið á 12 höggum yfir pari.

Ljóst er að Haraldur mun bæta stöðu sína á stigalista mótaraðarinnar en hann er í harðri baráttu um að enda í einu af fimm efstu sætunum sem tryggir honum þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.


Axel Bóasson.