Fréttir

Ólafía endaði í 20. sæti í Tékklandi
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 30. ágúst 2020 kl. 19:54

Ólafía endaði í 20. sæti í Tékklandi

Lokahringur Opna tékkneska mótsins fór fram í dag á Evrópumótaröð kvenna í golfi. Danski kylfingurinn Emily Kristine Pedersen stóð uppi sem sigurvegari á 17 höggum undir pari.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK voru báðar á meðal keppenda í mótinu. Ólafía náði flottum árangri þegar hún kláraði þriðja hringinn á 2 höggum undir pari og endaði á 5 höggum undir pari í heildina.

Ólafía endaði mótið í 20. sæti og fékk fyrir það 2.800 evrur. Þetta er fyrsta mót Ólafíu á Evrópumótaröðinni á tímabilinu.

Guðrún Brá, sem komst naumlega í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi, endaði í 57. sæti á 3 höggum yfir pari í heildina. Fyrir það fékk hún 743 evrur.

Næsta mót á Evrópumótaröð kvenna fer fram dagana 10.-12. september í Sviss.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna.