Fréttir

Ólafía Þórunn komst í gegnum niðurskurðinn í Hollandi
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd: Tristan Jones/LET
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 15. júlí 2022 kl. 21:46

Ólafía Þórunn komst í gegnum niðurskurðinn í Hollandi

Guðrún Brá kom til baka en það dugði ekki til

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR komst í gegnum niðurskurðinn á Big Green Egg Open í Hollandi en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Ólafía Þórunn lék fyrsta hringinn í gær á 70 höggum eða á 2 höggum undir pari Rosendaelsche vallarins og annan hringinn í dag á 78 höggum eða á 6 höggum yfir pari. Hún er því samtals á 4 höggum yfir pari eftir fyrstu tvo hringina. Niðurskurðarlínan miðast við 4 högg yfir par.

Þetta er fjórða mót Ólafíu Þórunnar síðan hún hóf endurkomu sína á keppnissviðið eftir að hafa borið sitt fyrsta barn undir belti. Henni tókst ekki að komast í gegnum niðurskurðinn í hinum mótunum þremur.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK er úr leik. Guðrún Brá tapaði fimm höggum á síðustu þremur holunum á fyrsta hring og kom í hús á 78 höggum eða á 6 höggum yfir pari. Hún kom til baka í dag og lék á 74 höggum eða á 2 höggum yfir pari en það dugði ekki til í þetta skiptið.

Whitney Hillier frá Ástralíu leiðir mótið inn í helgina á 8 höggum undir pari, einu höggi betur en Sarah Schober frá Austurríki en Schober átti eitt högg á Hillier eftir fyrsta hring.

Staðan á mótinu

Ólafía Þórunn á rástíma á þriðja hring laust fyrir klukkan átta í fyrramálið á íslenskum tíma.