Fréttir

Ollie kann vel við sig á Masters - 58 ára og komst í gegnum niðurskurðinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 18. apríl 2024 kl. 15:42

Ollie kann vel við sig á Masters - 58 ára og komst í gegnum niðurskurðinn

Spænskum kylfingum hefur gengið vel á Masters mótinu og þeir kunna vel við sig á Augusta National. José María Olazábal er einn þeirra fjögurra Spánverja sem hafa klæðst græna jakkanum og það í tvígang. Hann stóð sig mjög vel á nýafstöðnu Masters móti þó hann sé að verða sextugur eftir tvö ár.

Sigur á Masters tryggir þátttökurétt ævilangt. Það er því til mikils að vinna og núna var Ollie að mæta í 35. skipti sem er magnað. Spánverjinn tók fyrst þátt í mótinu fyrir fjörutíu árum þegar hann fékk þátttökurétt fyrir að vinna Opna breska áhugamannamótið árið 1984. Tíu árum síðar vann hann svo á Masters og klæddist græna jakkanum í fyrsta skipti. Hann gerði sér lítið fyrir fimm árum síðar og vann aftur. Eldri félagi hans og hetja, Seve Ballesteros hafði þá einmitt sigrað tvisvar. Síðar bættust Sergio Garcia og John Rahm í hóp spænskra sigurvegara. Í mótinu í ár var Ollie jafn Rahm sem sigraði í fyrra en þriðji Spánverjinn í mótinu, Garcia, náði ekki í gegnum niðurskurðinn.

José María Olazábal hefur á þessum 35 árum leikið 110 hringi og er með meðaltal upp á 73 högg. Hann hefur 19 sinnum komist í gegnum niðurskurðinn og 39 sinnum hefur hann leikið hring undir pari 39 sinnum. Þá hefur hann þrettán sinnum verið meðal fimmtán efstu á mótinu.

Það hefur slatti af Bandaríkjadollurum farið inn á reikning kappans í þessi 34 skipti en hann fékk ekkert þegar hann lék í fyrsta mótinu sem áhugamaður. Samtals nemur verðlaunafé Ollie á Masters frá 1985 til 2024 um 409 milljónum króna miðað við gengi á dollara þegar þetta er skrifað. Það er bara þokkalegt.