Fréttir

Öllum stærstu mótum Ástralíu aflýst á næsta ári
Adam Scott.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 15. október 2020 kl. 22:05

Öllum stærstu mótum Ástralíu aflýst á næsta ári

Ástralska golfsambandið tilkynnti í dag að þremur stærstu mótum ársins sem haldin eru af ástralska golfsambandi verði aflýst á næsta ári. Um er að ræða Ástralska PGA meistaramótið, Opna ástralska mótið og Opna ástralska kvennamótið.

Framkvæmdarstjóri PGA sambands Ástralíu, Gavin Kirkman, framkvæmdarstjóri áströlsku ALPGA-mótaraðarinnar, Karen Lunn, og framkvæmdarstjóri Golf Australia, James Sutherland, staðfestu í dag að öllum mótunum yrði aflýst en þau áttu öllu að fara fram í febrúar.

„Þetta er fordæmalaust og mikill missir fyrir ástralskt golf og fylgjendur þess,“ sagði Kirkman.

„Við erum í sameiningu búin að eyða mörgum mánuðum í að reyna útfæra öll þrjú mótin þannig að við gætum haldið þau á öruggan máta án þess að draga úr gæði mótanna.“

„Þrátt fyrir að vera með margar útfærslur og varaplan þá var komið að þeim tímapunkti að við urðum að taka ákvörðun og því miður er þetta niðurstaðan.“