Fréttir

Oosthuizen: Sigur hefði mikla þýðingu fyrir mig
Louis Oosthuizen. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 11. janúar 2020 kl. 19:39

Oosthuizen: Sigur hefði mikla þýðingu fyrir mig

Líkt og Kylfingur greindi frá fyrr í dag er heimamaðurinn Louis Oosthuizen með eins höggs forystu fyrir lokahringinn á SA Open mótinu sem fer fram á Evrópumótaröð karla í Suður-Afríku.

Oosthuizen er á 15 höggum undir pari fyrir lokahringinn en hann lék á 7 höggum undir pari í dag.

„Ég var vonsvikinn með gærdaginn að hafa ekki spilað betur því ég var að slá svo vel,“ sagði Oosthuizen eftir þriðja hringinn. „Í dag gerði ég svipaða hluti og hélt einfaldlega áfram að koma mér í eins mörg fuglafæri og ég gat.“

Oosthuizen hefur titil að verja í mótinu en með sigri á morgun getur hann orðið sá fyrsti í 16 ár til að verja titilinn í mótinu frá því að Trevor Immelman gerði það síðast.

„Að ná nafni mínu á bikarinn aftur hefði mikla þýðingu fyrir mig. Að verja titilinn og vera gestgjafi á sama tíma væri enn sérstakara.“

Englendingurinn Marcus Armitage er höggi á eftir Oosthuizen fyrir lokahringinn. Áhugamaðurinn ungi, Jayden Trey Schaper, er svo einn fimm kylfinga sem deila fjórða sætinu á 12 höggum undir pari, höggi á eftir Jaco Ahlers sem er þriðji.

Lokahringur mótsins fer frama á sunnudaginn. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.