Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Opna bandaríska: Einungis sex kylfingar undir pari
Patrick Reed leiðir eftir tvo hringi á Opna bandaríska mótinu.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 18. september 2020 kl. 23:05

Opna bandaríska: Einungis sex kylfingar undir pari

Bandaríkjamaðurinn Patrick Reed er með eins höggs forystu eftir tvo hringi á Opna bandaríska mótinu sem fer fram á Winged Food golfvellinum. Reed er á 4 höggum undir pari eftir tvo hringi en hann lék annan hringinn á parinu.

Masters sigurvegarinn 2018 var einn af fáum kylfingum sem lék á pari eða betra skori í dag en hann fékk alls fimm fugla og fimm skolla.

Örninn 2025
Örninn 2025

Höggi á eftir Reed er Bryson DeChambeau sem er í leit að sínum fyrsta risatitli. DeChambeau átti besta hring dagsins en hann lék á 2 höggum undir pari og er samtals á 3 höggum undir pari í mótinu og til alls líklegur.

Justin Thomas, Rafa Cabrera Bello og Harris English deila svo þriðja sætinu á 2 höggum undir pari en Thomas leiddi eftir fyrsta keppnisdaginn eftir að hafa leikið á 5 höggum undir pari.

Jason Kokrak er í 6. sæti á höggi undir pari en allir aðrir keppendur mótsins eru á pari eða verra skori sem sýnir vel hversu erfiður Winged Foot golfvöllurinn er að reynast kylfingum.

Staða efstu manna:

1. Patrick Reed, -4
2. Bryson DeChambeau, -3
3. Rafa Cabrera Bello, -2
3. Harris English, -2
3. Justin Thomas, -2
6. Jason Kokrak, -1

Tiger Woods og Phil Mickelson eru á meðal þeirra kylfinga sem komust ekki í gegnum niðurskurðinn að þessu sinni. Auk þeirra má nefna sigurvegarann frá því í fyrra, Gary Woodland, sem var á 8 höggum yfir pari eftir tvo hringi og féll því úr leik.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.