Örn á tvær holur dugði Gulla ekki gegn Poulter
Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG lauk keppni með svakalegum leik í St. Andrews Trophy keppninni, þar sem úrvalslið Evrópu mætti úrvalsliði Bretlands og Írlands. Gunnlaugur lék lokaleikinn gegn Luke Poulter og lauk leiknum með sigri hins enska á síðustu holunni þar sem báðir fengu örn.
Í lokaleiknum gegn Poulter en faðir hans er Ian Poulter, einn sigursælasti kylfingurinn í sögu Ryder bikarsins, var mikið fjör. Leikurinn var jafn eftir níu holur, báðir á tveimur undir pari. Fyrstu þrjár holurnar á seinni níu féllu allar á pari en svo vann Poulter næstu tvær. Fimmtánda holan sem er par 5 jafnaðist þegar báðir fengu örn (-2). Sextánda féll en Gulli vann 17. holuna og var því eina niður þegar þeir komu á lokabrautina sem er par 5. Ótrúlegt en satt fengu báðir örn á holuna og Poulter stóð því uppi sem sigurvegari. Magnað að báðir kylfingar fengu örn á tvær par 5 holur á seinni níu.
Úrvalslið Breta var mun heitara í mótinu og vann sannfærandi sigur 16,5 gegn 8,5 vinningum Evrópuliðsins. Gulli lék í fjórum viðureignum og náði ekki að vinna stig en töpin voru naum nema í einum leik sem hann tapaði 4/3.
Gunnlaugur var þarna með bestu áhugakylfingum heims en hann sjálfur er í 15. sæti heimslista áhugamanna og var annar hæsti á honum í Evrópuliðinum og aðeins einn var fyrir ofan hann í breska liðinu.
Mótið fór fram á Real Club de la Puerta de Hierro golfvellinum á Spáni 24.-25. júlí og er leikfyrirkomulagið með sama sniði og í Ryder- og Solheim bikurunum. Liðin samanstanda af níu kylfingum.
Mér má sjá ótrúlegt 30m. pútt Gunnlaugs fyrir erni: https://youtube.com/shorts/qkDoS5e3VdE?si=tIt_QzFED7-hcX6l