Fréttir

Öruggur sigur hjá Guðmundi Ágústi
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Fimmtudagur 14. febrúar 2019 kl. 15:45

Öruggur sigur hjá Guðmundi Ágústi

Guðmundur Ágúst Kristjánsson landaði í dag sínum fyrsta sigri á Nordic Golf mótaröðinni en hann stóð uppi sem sigurvegari á Mediter Real Estate Masters mótinu sem fram fór í Barselóna. Guðmundur lék frábært golf allt mótið og lauk leik á samtals 12 höggum undir pari, þremur höggum á undan næstu mönnum. Besti árangur Guðmundar á mótaröðinni til þessa var 4. sæti.

Lokahringinn lék Guðmundur á 66 höggum eða fjórum höggum undir pari. Fyrir daginn var Guðmundur með eins höggs forystu á Jarand Ekeland Arnoy en með frábærri spilamennsku náði hann að auka forskotið og tryggja sér öruggan sigur.

Guðmundur lék frábærlega lengst af á lokahringnum þar sem hann tapaði ekki höggi en fékk sex fugla á fyrstu 15 holunum og var þá kominn með fimm högga forskot. Undir lokin fór aðeins að halla undan fæti þar sem hann fékk tvo skolla á síðustu þremur holunum. Það kom þó ekki að sök og kom hann eins og áður segir í hús á fjórum höggum undir pari. Fyrstu tvo hringina lék hann á 64 höggum (-8) og 70 höggum (par).

Aðrir íslenskir keppendur sem tóku þátt voru Haraldur Franklín Magnús, Andri Björnsson og Axel Bóasson. Haraldur endaði jafn í 16. sæti á þremur höggum undir pari, Andri lenti jafn í 40. sæti á tveimur höggum yfir pari en Axel komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.