Fréttir

PGA: 2000 áhorfendur leyfðir á Houston Open
Áhorfendur fagna með Tiger Woods í Forsetabikarnum í fyrra.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 21. október 2020 kl. 18:23

PGA: 2000 áhorfendur leyfðir á Houston Open

Bestu kylfingar heims hafa undanfarna mánuði leikið án áhorfenda á stærstu mótaröðunum eftir hlé sem var gert vegna Covid-19.

Ef allt gengur eftir næstu vikur má reikna með að fyrsta mótið á PGA mótaröðinni fari fram með áhorfendum en í tilkynningu frá mótaröðinni kemur fram að allt að 2.000 áhorfendur fái leyfi til að fylgjast með alla fjóra dagana á Houston Open mótinu.

Allir áhorfendur, sem og sjálfboðaliðar, munu þurfa að nota grímur en fram kemur að nánari leiðbeiningar sé að vænta á næstunni.

Houston Open fer fram dagana 5.-8. nóvember og er síðasta mótið áður en Masters mótið fer fram, þriðja og síðasta risamót ársins. Þó verða engir áhorfendur á Masters mótinu.