Fréttir

PGA: Boo Weekley óvænt í toppbaráttunni
Boo Weekley.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 1. nóvember 2019 kl. 22:00

PGA: Boo Weekley óvænt í toppbaráttunni

Bermuda meistaramótið fer fram á PGA mótaröðinni um helgina en mótið er haldið fyrir þá kylfinga sem ekki komust inn í HSBC Champions heimsmótið sem fram fer í Kína um þessar mundir.

Eftir tvo hringi eru þeir Harry Higgs, Brendon Todd og Scottie Scheffler jafnir í forystu á 11 höggum undir pari. Todd átti besta hring dagsins en hann lék á 8 höggum undir pari og var höggi frá vallarmeti sem Scheffler setti á fyrsta keppnisdeginum.

Jafnir í fjórða sæti eru, líkt og í efstu þremur sætunum, þrír Bandaríkjamenn. Athygli vekur að Boo Weekley er einn þeirra en hann er í leit að sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni frá árinu 2013 en hann sigraði á sínum tíma á 3 mótum á mótaröðinni og komst hæst í 23. sæti á heimslista karla í golfi. Árangur hans undanfarna mánuði og ár hefur ekki verið frábær en hann er dottinn niður í 952. sæti og hefur ekki endað meðal 10 efstu í móti á PGA mótaröðinni frá því árið 2017.

Þriðji hringur mótsins fer fram á morgun, laugardag. Hérna má sjá stöðuna í mótinu.