Fréttir

PGA: Cantlay lék á 62 höggum
Patrick Cantlay. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 12. febrúar 2021 kl. 08:51

PGA: Cantlay lék á 62 höggum

Bandaríkjamaðurinn Patrick Cantlay er með tveggja högga forystu eftir fyrsta hringinn á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu sem er hluti af PGA mótaröðinni í golfi. Cantlay lék á 62 höggum og var höggi frá vallarmetinu á Pebble Beach vellinum sem Hurly Long setti árið 2017.

Cantlay byrjaði hringinn af miklum krafti og var á 7 höggum undir pari eftir 8 holur. Næstu 10 holur bætti hann við sig þremur fuglum en hann tapaði ekki höggi á hringnum.

Tveimur höggum á eftir Cantlay eru þeir Akshay Bhatia og Henrik Norlander en sá fyrrnefndi gerði sér lítið fyrir og hitti allar 18 holurnar í tilætluðum höggafjölda. Það hafði ekki gerst á Pebble Beach vellinum frá árinu 2008 þegar Ryan Palmer afrekaði það.

Nate Lashley og Jordan Spieth deila fjórða sætinu á 7 höggum undir pari. Allir fimm efstu kylfingar mótsins spiluðu Pebble Beach völlinn á fyrsta keppnisdegi en besta skorið frá Spyglass Hill átti Will Gordon sem lék á 6 höggum undir pari.

Annar hringur mótsins fer fram í dag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.