Fréttir

PGA: Johnson ekki með um helgina
Dustin Johnson sigraði á Saudi International mótinu á dögunum.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 10. febrúar 2021 kl. 16:00

PGA: Johnson ekki með um helgina

Efsti kylfingur heimslistans, Dustin Johnson, hefur dregið sig úr leik á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu sem hefst á fimmtudaginn á PGA mótaröðinni í golfi.

Johnson, sem sigraði á Saudi International mótinu um síðustu helgi, hefur ekki gefið neitt út en hann sleppti einnig móti í kjölfarið á sigrinum á Masters mótinu í nóvember.

Áður en Johnson hætti við þátttöku í móti vikunnar var hann talinn líklegastur til sigurs eftir fjóra sigra í síðustu 9 mótum. Í fjarveru hans eru sterkustu kylfingar mótins kylfingar á borð við Patrick Cantlay, Paul Casey, Daniel Berger, Francesco Molinari, Jordan Spieth, Kevin Streelman og Jason Day.