Fréttir

PGA: Johnson fagnaði stigameistaratitli á East Lake
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 7. september 2020 kl. 21:36

PGA: Johnson fagnaði stigameistaratitli á East Lake

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson sigraði í dag á TOUR Championship mótinu og varð þar með stigameistari á PGA mótaröðinni árið 2020. Johnson lék á 11 höggum undir pari í mótinu sem var nóg til að halda forystunni sem hann byrjaði mótið með.

Fyrir lokadaginn var Johnson með fimm högga forystu á þá Xander Schauffele og Justin Thomas sem veittu honum einmitt mestu keppnina í dag.

Fyrir lokaholuna var Johnson með tveggja högga forystu á Schauffele en Thomas var þá þremur höggum á eftir Johnson og ekki lengur með raunhæfan möguleika á sigri.

Schauffele missti hins vegar teighöggið sitt til vinstri á lokaholunni á meðan Johnson smellhitti teighögg sitt og var eftirleikurinn auðveldur hjá Johnson.

Þetta er fyrsti stigameistaratitill Dustin Johnson á PGA mótaröðinni en hann hefur verið einn besti kylfingur mótaraðarinnar undanfarin 10 ár. Þá var sigur dagsins númer 23 í röðinni hjá Bandaríkjamanninum á mótaröðinni sem er 27. besti árangur í sögu hennar.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Staða efstu manna í mótinu:

1. Dustin Johnson, -21
2. Xander Schauffele, -18
2. Justin Thomas, -18
4. Jon Rahm, -17
5. Scottie Scheffler, -14
6. Collin Morikawa, -13
7. Tyrrell Hatton, -12
8. Patrick Reed, -11
8. Sebastian Munoz, -11
8. Rory McIlroy, -11