Fréttir

PGA: Koepka sigraði á WM Phoenix Open
Brooks Koepka.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 8. febrúar 2021 kl. 11:37

PGA: Koepka sigraði á WM Phoenix Open

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka sigraði í gær á WM Phoenix Open mótinu sem var hluti af PGA mótaröðinni í golfi. Koepka hefur þar með sigrað á 8 mótum á PGA mótaröðinni en þar af komu fjórir sigrar á risamótum.

Fyrir lokahringinn voru þeir Jordan Spieth og Xander Schauffele í forystu á 18 höggum undir pari og var reiknað með að sigurskorið yrði hið minnsta 20 högg undir pari. Spieth og Schauffele voru hins vegar töluvert frá sínu besta á lokahringnum og það nýtti Koepka sér sem kom inn á 6 höggum undir pari og sigraði á 19 höggum undir pari í heildina.

Högg lokadagsins átti Koepka en hann vippaði í holu á 17. holu og komst þar með einn í forystu. Höggið má sjá hér fyrir neðan.

Fyrir mót helgarinnar hafði Koepka leikið í þremur mótum í röð án þess að komast í gegnum niðurskurðinn. Til samanburðar komst hann í gegnum alla niðurskurði nema þrjá á árunum 2018 og 2019 samtals.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Staða efstu manna:

1. Brooks Koepka, -19
2. Kyoung-Hoon Lee, -18
2. Xander Schauffele, -18
4. Carlos Ortiz, -17
4. Steve Stricker, -17
4. Jordan Spieth, -17