Fréttir

PGA meistaramótið fært af Trump Bedminster
Mynd: Trump Bedminster golfvöllurinn.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 11. janúar 2021 kl. 11:41

PGA meistaramótið fært af Trump Bedminster

PGA meistaramótið árið 2022 verður ekki haldið hjá Trump National golfklúbbnum í Bedminster.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá PGA sambandinu í Bandaríkjunum en ákveðið var að segja upp samningi við golfvöllinn, sem er í eigu Donald Trump. Ákvörðunin var tekin einungis nokkrum dögum eftir að stór hópur fólks réðst ólöglega og með valdi inn í bandaríska þinghúsið.

„Stjórn PGA of America samþykkti í kvöld að nýta rétt sinn til þess að rifta samningi um að halda PGA meistaramótið 2022 á Trump Bedminster vellinum,“ sagði Jim Richerson, forseti PGA of America.

Árið 2012 var ákveðið að PGA meistaramótið, sem er eitt af risamótunum fjórum hjá körlunum, yrði haldið á Bedminster vellinum í New Jersey árið 2022. Það var í fyrsta sinn sem völlur í eigu Trump varð fyrir valinu fyrir risamót karla en PGA meistaramót kvenna fór fram á þessum sama velli árið 2017.

„Við vinnum fyrir okkar meðlimi, fyrir íþróttina, okkar markmið og okkar samtök,“ sagði Seth Waugh, framkvæmdastjóri PGA. „Hvernig stöndum við sem best vörð um þau? Okkur þótti ekki forsvaranlegt að halda mótið á Bedminster eftir hina sorglegu atburði síðasta miðvikudag. Tjónið hefði getað orðið óbætanlegt. Eina alvöru leiðin var að hætta við.“

Ekki er búið að taka ákvörðun um mótsstað fyrir PGA meistaramótið á næsta ári en þrír fyrrverandi mótsstaðir hafa verið nefndir; Bethpage Black, Southern Hills og Valhalla.