Fréttir

PGA: Næstu tvö mót leikin á sama velli
Jon Rahm verður meðal keppenda um helgina.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 7. júlí 2020 kl. 10:31

PGA: Næstu tvö mót leikin á sama velli

Fjögur mót hafa verið leikin á PGA mótaröðinni eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Það eru því mörgum mótum sem hafa annað hvort verið frestað eða aflýst. Sú óvenjulega staða er því komin upp að næstu tvö mót verða leikin á sama velli til að fylla upp í dagskránna.

Á fimmtudaginn hefst Workday Charity Open mótið og í næstu viku fer Memorial mótið fram en bæði mótin eru leikin á Muirfield golfvellinum. Memorial mótið er yfirleitt eitt af sterkustu mótum tímabilsins á PGA mótaröðinni en Jack Nicklaus heldur mótið.

Mótshaldarar hafa gert viðeigandi rástafanir til að tryggja að völlurinn verði ekki eins báðar vikurnar. Til að mynda hefur karginn verið sleginn fyrir mót helgarinnar og verða flatirnar ekki slegnar eins lágt. Þar af leiðandi geta mótshaldarar leyft sér að skera holurnar á staði sem hafa ekki áður sést.

Fyrir Memorial mótið verður svo karginn látinn vaxa og flatirnir slegnar niður og verður það haldið með hefðbundnu sniði.