Fréttir

PGA: Nýtt púttgrip hjá Finau sem leiðir
Tony Finau.
Fimmtudagur 23. maí 2019 kl. 23:20

PGA: Nýtt púttgrip hjá Finau sem leiðir

Tony Finau er í forystu eftir fyrsta hringinn á Charles Schwab Challenge mótinu sem hófst í dag á PGA mótaröðinni. Finau lék fyrsta hringinn á 6 höggum undir pari og er með högg í forskot á næstu menn.

Undanfarnar vikur hefur Finau átt í erfiðleikum með pútterinn og ákvað hann eftir PGA meistaramótið um síðustu helgi að gera róttækar breytingar með því að skipta yfir í „klóargripið“.

Í dag var Finau frábær á flötunum og setti meðal annars niður 7 metra pútt á 12. holu, 8 metra pútt á 13. holu og um 6 metra pútt þegar hann bjargaði flottu pari á 16. holu.

„Mig langaði einfaldlega að breyta aðeins til,“ sagði Finau eftir hringinn. „Ég hef ekki verið að pútta svo vel. Þegar maður stendur yfir boltanum er mikilvægasti hluturinn hvort manni líði eins og maður setji púttið í holu. Mig langaði að prófa eitthvað öðruvísi og mér leið frábærlega á hringnum í dag.“

Roger Sloan og Jordan Spieth eru jafnir í öðru sæti á 5 höggum undir pari. Nick Watney, Jimmy Walker, Jason Dufner og sex aðrir kylfingar deila svo 4. sætinu á 3 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
[email protected]