Fréttir

PGA: Streb í kjörstöðu til að vinna RSM Classic í annað skiptið
Robert Streb.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 22. nóvember 2020 kl. 12:06

PGA: Streb í kjörstöðu til að vinna RSM Classic í annað skiptið

Bandaríkjamaðurinn Robert Streb er með þriggja högga forystu fyrir lokahringinn á RSM Classic mótinu sem fer fram á PGA mótaröðinni í golfi. Streb er á 17 höggum undir pari eftir þrjá hringi en hann lék þriðja hringinn á þremur höggum undir pari.

Eftir 54 holur er Streb einungis búinn að fá einn skolla en á móti hefur hann fengið 18 fugla og hefur varla gert mistök. Takist honum að sigra á sunnudaginn verður það annar sigurinn hans á mótaröðinni sem og annar sigurinn á RSM Classic en hann sigraði árið 2014 þegar mótið hét McGladrey Classic.

Zach Johnson og Bronson Burgoon eru jafnir í öðru sæti fyrir lokahringinn, þremur höggum á eftir Streb. Emiliano Grillo er í fjórða sæti á 13 höggum undir pari.

Camilo Villegas, sem leiddi eftir fyrsta hringinn, mun hefja lokahringinn 5 höggum á eftir Streb en hann er í leit að sínum fyrsta sigri á mótaröðinni frá árinu 2014.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.