PGA: Thomas leiðir á Zozo | Werenski með vallarmet
Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas er efstur eftir tvo hringi á Zozo meistaramótinu sem fer fram á PGA mótaröðinni í golfi. Thomas er á 14 höggum undir pari eftir hringina tvo en hann hefur leikið þá báða á 65 höggum (-7).
Thomas var þrátt fyrir það ekki neitt sérstaklega ánægður eftir annan hringinn en hann var svekktur með að hafa fengið sex pör á síðustu sex holunum sem bjóða vanalega upp á fugladans.
Í síðustu fjórum mótum hefur Thomas unnið eftir að hafa verið í forystu eftir 36 holur en það verður erfitt um helgina þar sem 20 aðrir kylfingar eru á 10 höggum undir pari eða betra skori.
Richy Werenski lék manna best á öðrum hringnum en hann spilaði á 61 höggi sem er lægsta skorið á Sherwood vellinum. Tiger Woods átti fyrra vallarmetið en hann hafði spilað á 62 höggum árið 2013.
Umræddur Woods lék á 66 höggum á öðrum deginum og er nú á tveimur höggum undir pari eftir tvo hringi, 12 höggum á eftir Thomas.
Staða efstu kylfinga:
1. Justin Thomas, -14
2. Dylan Frittelli, -13
2. Lanto Griffin, -13
4. Patrick Cantlay, -12
4. Scottie Scheffler, -12