Fréttir

PGA: Tveir jafnir á toppnum eftir fyrsta hring
Matthew NeSmith
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 5. febrúar 2021 kl. 09:48

PGA: Tveir jafnir á toppnum eftir fyrsta hring

Fyrsti hringur á Waste Management Phoenix Open mótinu var leikinn í gær en mótið er hluti af PGA mótaröðinni og fer fram í Arizona í Bandaríkjunum. Efstu sætin eru þétt setin af heimamönnum og deila tveir þeirra efsta sætinu. 

Matthew NeSmith er annar þeirra en hann lék hringinn í gær á 8 höggum undir pari. Hann tapaði ekki höggi í gær en fékk einn örn og sex fugla. Jafn honum í efsta sætinu er Mark Hubbard sem tapaði heldur ekki höggi en fékk 8 fugla á hringnum.

Tveir kylfingar eru svo jafnir í 3. sæti á 7 höggum undir pari, einu höggi á eftir efstu mönnum. Það eru þeir Nate Lashley og Sam Burns. 

Aðeins eru 5000 áhorfendur leyfðir á vellinum á meðan mótinu stendur en það er þó mesti leyfði áhorfendafjöldi á PGA móti frá því að COVID faraldurinn hófst. Keppendur taka vissulega eftir fækkun áhorfenda eins og NeSmith minntist á.

„Ég náði örugglega þöglustu næstum holu í höggi á 16. holunni. Það voru kannski sex manns sem klöppuðu en ég sló svona 10 sentímetra frá holunni".

Hér má fylgjast með stöðunni í mótinu.