Fréttir

PGA: Tveir jafnir þegar fjórar holur eru eftir
Vaughn Taylor.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 18. nóvember 2019 kl. 10:00

PGA: Tveir jafnir þegar fjórar holur eru eftir

Upphaflega áttai Mayakoba Golf Classic mótið á PGA mótaröðinni að klárast í gær en vegna slæms veðurs á fimmtudaginn frestaðist mótið og náðu því kylfingar ekki að ljúka leik á fjórða hring í gær. Efstu menn hafa lokið við 14 holur á lokahringnum og því mikil spenna fyrir síðustu fjórar holurnar.

Dagurinn var langur í gær þar sem markmiðið var að leika 36 holur. Það tókst ekki og þurfa því kylfingar að snúa til baka á völlinn í dag til að ljúka leik á fjórða hring.

Þegar leik var frestað í gær eru þeir Vaughn Taylor og Brendon Todd jafnir í efsta sætinu á 20 höggum undir pari. Þeir hafa báðir lokið við 14 holur. Taylor er á fjórum höggum undir pari á hringnum á meðan Todd er á þremur höggum undir pari.

Tveir kylfingar eru jafnir í öðru sæti á 19 höggum undir pari. Carlos Ortiz er einn þeirra og hefur hann lokið við 17 holur á meðan Harris English sem er líka á 19 höggum undir pari hefur aðeins lokið við 15 holur.

Leikur hefst að nýju upp úr hádegi á íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með skori keppenda hérna.