Fréttir

Pieters hefur lagt mikla áherslu á púttin
Thomas Pieters. Mynd: Getty Images.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 23. janúar 2020 kl. 22:36

Pieters hefur lagt mikla áherslu á púttin

Líkt og Kylfingur greindi frá í dag er Belginn Thomas Pieters í forystu á Omega Dubai Desert Classic mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð karla í golfi.

Pieters lék fyrsta hring mótsins á fimm höggum undir pari en þessi 27 ára gamli kylfingur er höggi á undan Bandaríkjamanninum David Lipsky þegar þrír hringir eru eftir af mótinu.

„Drævin mín og höggin með þrjú trénu voru ekki svo góð í dag,“ sagði Pieters eftir fyrsta hringinn. „Einhvern veginn hitti ég flatirnar og ef ég hitti braut þá nýtti ég mér það.

Ég spilaði par þrjú holurnar mjög vel sem þýðir að járnaspilið mitt er nokkuð gott líkt og í síðustu viku og ég setti einfaldlega nokkur pútt í sem var gott.

Ég er búinn að leggja mikla áherslu á púttin og vonast til að sjá árangur. Ég sá það í dag. Vonandi get ég haldið því áfram. Ég veit að ég er að slá nokkuð vel og hlakka til næstu þriggja daga.“

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.