Ragga frábær í fyrsta hring og er í forystu
Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR lék best allra á fyrsta hring í Vasteras mótinu í Svíþjóð á LET Access mótaröðinni í Evrópu í gær. Ragga lék hringinn á 7 undir pari, 65 höggum, þar sem hún fór mikinn á seinni níu holunum.
Ragnhildur lék fyrri níu holurnar á einu höggi undir pari. Hún fékk síðan fimm fugla og einn örn á seinni níu holunum. Ragga fékk aðeins einn skolla og kláraði því hringinn á frábæru skori og var í forystu eftir fyrsta daginn í gær.
Ragga hefur verið vaxandi á síðustu vikum en hún varð í 2. sæti á móti í síðustu viku.
Aðspurð eftir fyrsta hringinn sagði Íslandsmeistarinn frá 2023 að árangurinn í síðasta móti hafi haft góð áhrif á hana. „Ég lék vel og nú small allt saman og ég náði mjög góðum hring. Ég var mjög góð af teig sem kom mér í góða stöðu úti á velli og átti þannig auðveldara með að koma mér í fuglafæri sem ég og gerði.
Andrea Bergsdóttir hefur verið í baráttunni og gengið vel á mótaröðinni í ár og hún lék fyrsta hringinn á 71 höggi eða einu höggi undir pari.
LET access mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu.