Ragnhildur eftir sigurinn: Við mamma fögnum með feitri steik
„Ég ætla að fagna sigrinum með því að fá mér feita steik með mömmu og hún fær glas af rauðvíni með. Kannski horfum við líka á fótbolta,“ sagði Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR eftir tímamótasigur íslenskarar golfkonu á erlendri grundu.
Ragga vann Vasteras mótið í Svíþjóð á LET Access mótaröðinni í Evrópu, þeirri næst sterkustu í Evrópu. Hún fylgdi eftir góðri frammistöðu í síðustu viku þar sem hún endaði í 2. sæti.
„Mamma hefur verið með mér síðan í byrjaði í golfi sex ára gömul. Hún var með mér þegar ég vann mitt fyrsta unglingamót og að hafa hana þegar ég vinn fyrsta atvinnumannamótið mitt var geggjað,“ sagði Ragga í viðtali á heimasíðu LET Access.
„Þessi sigur er þvílíkt mikilvægur fyrir mig og sjálfstraustið. Ég var nálægt sigri í síðustu viku en að ná sigri var svo mikilvægt og verður svo gott fyrir mig á næstunni.
Svo er þetta tímamót fyrir okkur íslenskar golfkonur. Á okkar mótaröð hefur Andrea Bergsdóttir staðið sig vel og Guðrún Brá Björgvinsdóttir líka á LET Evrópumótaröðinni. Þegar við lítum til baka á þær sem hófu vegferð íslenskra golfkvenna er hægt að nefna Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Valdísi Þóru Jónsdóttur sem ruddu veginn fyrir okkur. En að vera fyrsta sem vinnur á erlendri grundi í atvinnumannamóti er magnað.“
Eftir sigurinn er Ragga komin í 4. sæti stigalistans en fimm efstu fá þátttökurétt á LET í lok árs. Andrea Bergsdóttir er í 12. sæti.