Fréttir

Ragnhildur og Guðrún Brá komust áfram á lokastigið fyrir Evrópumótaröðina
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 12. desember 2023 kl. 19:13

Ragnhildur og Guðrún Brá komust áfram á lokastigið fyrir Evrópumótaröðina

Ragnhildur Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir komust áfram á lokaúrtökumótið fyrir LET Evrópumótaröð kvenna 2024 eftir að hafa endað í 10. og 13. sæti á úrtökumótum sem haldin voru á Lalla Aicha golfsvæðinu í Marrakech í Marokkó 10.-12. desember.

Ragnhildur lék mjög gott golf fyrstu tvo dagana og var í efsta sæti eftir fyrsta daginn og deildi því eftir annan daginn. Hún missti aðeins flugið í lokahringnum og endaði í 10. sæti á einu höggi undir pari.

Guðrún Brá lék vel á fyrsta hring (-3), gekk illa á öðrum (+5) en lék svo frábært golf á þriðja hringnum (-6) og endaði í 13. sæti og tryggði sér áfram. Þær léku á sitt hvorum vellinum í Marrakech.

Guðrún hefur verið með þátttökurétt á LET Evrópumótaröðinni síðustu þrjú ár, þar af takmarkaðan á þessu ári, en missti hann í haust og þurfti því að fara aftur í úrtökumót.

Þetta er í fyrsta skipti sem Ragnhildur kemst á lokaúrtökumótið. Hún segir að það sé margt jákvætt sem hún geti byggt á eftir þetta mót.

„Ég var mjög stöðug af teig alla þrjá hringina, járnin voru mjög góð fyrstu tvo hringina en duttu aðeins niður í lokahringnum. Pútterinn var frábær fyrsta daginn en kólnaði aðeins annan og þriðja daginn. Ég viðurkenni að það var erfitt að „motivera“ sig í morgun til að spila lokahringinn þar sem lokaniðurstaðan í þessu móti skiptir engu máli svo lengi sem þú kemst í gegn. Aðallega er ég mjög ánægð með hvernig ég hélt mér alltaf í núinu og fór aldrei of langt fram úr mér,“ sagði Ragnhildur eftir lokahringinn í dag.

Lokamótið leggjst vel í hana og hún er spennt. „Það er bara áfram gakk, við fáum núna nokkra daga til að safna kröftum og undirbúa fyrir lokastigið sem hefst á laugardaginn. Það er algjört maraþon en ég er mjög spennt að takast á við það verkefni.“

Lóa D. Jóhannsson, þriðji íslenski kylfingurinn á þessu fyrra stigi úrtökumótanna komst ekki áfram en þetta er í fyrsta skipti sem hún tekur þátt. Hún lék á +12 á 54 holunum og endaði í 56. sæti.

Á lokaúrtökumótinu keppa 156 konur á Al Maaden og Royal golfvöllunum í Marrakech um keppnisrétt á LET mótaröð kvenna í Evrópu 2024. Niðurskurður er eftir fjóra keppnishringi en efstu tuttugu leika svo tvo hringi til viðbótar.