Ragnhildur sigraði í Svíþjóð
Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR sigraði á Vasteras mótinu í Svíþjóð á LET Access mótaröðinni í Evrópu sem lauk í morgun. Mikil spenna var í lokahringnum en okkar kona sem var í 2. sæti fyrir lokahringinn lék best við erfiðari aðstæður en fyrstu daga og sigraði á sínu fyrsta móti á LET Access mótaröðinni.
Ragga lék þriðja hringinn á einu höggi yfir pari og réðust úrslitin á síðustu holunni. Ragnhildur og hin danska Amalie Leth-Nissen voru jafnar þegar þær komu á lokaholuna. Ragga fékk par en Amalie fékk skolla. Þær Elena Colombo og Isavell Ekstrom komu tveimur höggum á eftir Ragnhildi.
Andrea Bergsdóttir endaði jöfn í 30. sæti á +3 en hún lék þriðja hringinn á tveimur yfir pari og hringina þrjá á 71-74-74.
Ragnhildur endaði í 2. sæti í síðustu viku og hefur heldur betur flogið upp stigalistann. Það var ekki búið að uppfæra stigalistann þegar þetta var skrifað en Ragga var í 13. sæti og Andrea í 10. sæti fyrir þetta mót.