Fréttir

Rahm sigraði og komst í efsta sæti heimslistans
Jon Rahm.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 19. júlí 2020 kl. 23:34

Rahm sigraði og komst í efsta sæti heimslistans

Spánverjinn Jon Rahm sigraði í dag á Memorial mótinu sem fór fram á PGA mótaröðinni um helgina.

Rahm lék hringina fjóra í mótinu á 9 höggum undir pari og varð að lokum þremur höggum á undan Ryan Palmer sem varð annar.

Á einum tímapunkti á lokahringnum var Rahm með 8 högga forystu og gat hann því gefið örlítið eftir án þess að nokkur kylfingur ógnaði forystu hans almennilega.

Atvik lokahringsins átti sér stað á 16. holu þegar Rahm setti niður magnað vipp fyrir fugli. Rahm áttaði sig ekki á því sjálfur en boltinn hans hreyfðist örlítið þegar hann stillti sér upp fyrir höggið og fékk hann því tvö högg í víti.

Skor keppenda var hátt á lokahringnum og til marks um það léku einungis fimm kylfingar undir pari. Danny Willett lék á 82 höggum, Brooks Koepka lék á 80 höggum, Rory McIlroy lék á 78 höggum sem og Phil Mickelson.

Þetta er fjórði sigur Jon Rahm á PGA mótaröðinni en auk þess hefur hann sigrað á sex mótum á Evrópumótaröðinni. Fyrir helgina var Rahm í öðru sæti heimslistans en hann færist upp í það efsta með sigri dagsins.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna.