Fréttir

Reed vann í Dubai og hættir á LIV
Reed lék vel í Dubai og sigraði. Nokkrum dögum síðar tilkynnti hann brottför sína af LIV mótaröðinni. MyndGetty Images.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 29. janúar 2026 kl. 10:19

Reed vann í Dubai og hættir á LIV

Bandaríkjamaðurinn Patrick Reed fylgdi eftir sigri á móti á DP Evrópumótaröðinni í síðustu viku með því að tilkynna brottför sína af LIV mótaröðinni. Hann tilkynnti að hann myndi keppa á DP mótaröðinni á þessu ári með það að markmiði að snúa aftur á PGA mótaröðina jafnvel strax í september.

Ákvörðun hans vakti mikla athygli og kemur aðeins þremur dögum eftir sigur hans á Dubai Desert Classic, og sömu viku og fimmfaldur sigurvegari risamóta, Brooks Koepka, snýr aftur á PGA á Torrey Pines. Reed á einn risasigur (Masters) og margir muna sigur hans í tvímenningi á móti Rory Mcilroy í Ryder bikarnum fyrir nokkrum árum.

„Ég er íhaldssamur í eðli mínu og fæddur til að spila á PGA mótaröðinni, þar sem sagan mín hófst með eiginkonu minni, Justine,“ sagði Reed. „Ég er afar þakklátur fyrir þau tækifæri sem mér hafa boðist og fyrir lífið sem við höfum byggt upp. Ég held áfram að þróast á ferlinum og hlakka til að keppa bæði á PGA og DP World Tour. Ég get ekki beðið eftir að komast aftur út á völlina og heimsækja á ný nokkra af bestu stöðum jarðar.“

PGA Tour sendi leikmönnum minnisblað þar sem leiðin til baka var útskýrð fyrir leikmenn eins og Reed, sem féllu ekki undir svokallað „Returning Member Program“, sem aðeins stóð þeim til boða sem höfðu unnið risamót eða The Players Championship frá árinu 2022.

Reed vann Masters-mótið árið 2018. Forráðamenn PGA segja að hann yrði gjaldgengur til að snúa aftur á PGA ári eftir síðasta mót sitt á LIV Golf, þann 24. ágúst 2025. Hann mun ekki sæta frekari agaviðurlögum af hálfu PGA, þar sem Reed sagði sig úr aðild að mótaröðinni þegar hann fór til LIV, og hann var ekki aðili að samkeppnismálsókninni sem höfðað var gegn PGA Tour árið 2022.

Reed getur tekið þátt í FedEx-mótunum — þar sem fyrsta mótið er Biltmore Championship í Asheville í Norður-Karólínu dagana 17.–20. september — ef hann fær boð frá keppnishaldara. Hann getur ekki nýtt takmarkaða stöðu sína sem fyrrverandi meistari fyrr en árið 2027.

Reed getur einnig tryggt sér fullt keppnisréttindi með því að enda meðal tíu efstu í Race to Dubai stigakeppninni, að því gefnu að þeir leikmenn séu ekki þegar með aðild að PGA mótaröðinni. Sigur hans í Dubai færði hann upp í annað sæti stigakeppninnar, og nú bíður hans fullt keppnistímabil í Evrópu — á mótaröðinni sem í markaðslegu samhengi kallast DP World Tour.

Hann er einnig skráður til keppni á öllum fjórum risamótunum, eftir að hafa hækkað í 29. sæti heimslistans.