Fréttir

Rory McIlroy: Ég á góðar minningar héðan
Rory McIlroy. Mynd: GettyImages.
Miðvikudagur 23. maí 2018 kl. 15:59

Rory McIlroy: Ég á góðar minningar héðan

Fjórfaldi risameistarinn Rory McIlroy er meðal keppenda á móti helgarinnar á Evrópumótaröðinni, BMW PGA Championship, sem fer fram á Wentworth vellinum í Englandi.

Fyrir utan að hafa unnið mótið í 2014 er saga McIlroy í mótinu ekkert sérstök en hann hefur ekki komist í gegnum niðurskurðinn í fjórum af átta tilraunum. 

„Þetta er völlur þar sem þú getur fljótt orðið pirraður ef þú ert ekki að slá vel,“ sagði McIlroy á blaðamannafundi fyrir mótið. „Ég hef alveg spilað illa hérna en ég hef einnig spilað vel og á góðar minningar héðan. Ef ég næ að slá nógu vel inn á flatirnar held ég að ég eigi séns um helgina.“

Þegar McIlroy vann mótið árið 2014 var sigurinn upphafið að frábæru sumri þar sem hann sigraði á Opna mótinu, Bridgestone heimsmótinu og PGA meistaramótinu og vonast hann til þess að svipað verði upp á teningnum í sumar.

„Leikurinn minn var á góðri leið árið 2014 en ég var ekki á ná þeim árangri sem ég bjóst við. Þegar ég vann hafði það mikil áhrif og ég komst á frábært skrið. Ég væri alveg til í að ná svipuðum árangri aftur.

Það er annasamt sumar framundan, þrjú risamót og Ryder bikarinn og allt þar fyrir utan. Vonandi verður mótið um helgina neistinn sem kemur öllu af stað aftur.“

Margir af bestu kylfingum heims eru meðal keppenda á BMW PGA meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn. Auk McIlroy eru þeir Tommy Fleetwood, Paul Casey, Alex Noren og Ian Poulter skráðir til leiks svo einhverjir séu nefndir.

Ísak Jasonarson
[email protected]