Fréttir

Rúnar, Bjarki og Aron komust áfram
Bjarki Pétursson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 8. október 2019 kl. 13:53

Rúnar, Bjarki og Aron komust áfram

Rúnar Arnórsson, Bjarki Pétursson og Aron Snær Júlíusson eru allir komnir áfram á lokastig úrtökumótanna fyrir Nordic Golf mótaröðina. Þetta varð ljóst í dag þegar 1. stigs úrtökumót fyrir mótaröðina kláraðist í Danmörku en fjórir íslenskir kylfingar tóku þátt í mótinu.

Rúnar og Bjarki gerðu sér lítið fyrir og enduðu í 2. sæti í mótinu á 5 höggum undir pari. Spilamennska þeirra var nokkuð ólík á öðrum keppnisdeginum en Bjarki fékk fjóra fugla á seinni níu eftir að hafa byrjað illa á meðan Rúnar fékk einungis einn fugl og einn skolla á hringnum.

Aron Snær endaði mótið í 17. sæti og komst því áfram en 22 kylfingar fara í gegn á þessum keppnisstað. Aron lék hringina tvo samtals á 3 höggum yfir pari og var höggi betri en kylfingar í sætum 19-23 sem halda nú í bráðabana um lokasætin á lokaúrtökumótinu.

Ragnar Már Garðarsson er úr leik í þetta skiptið eftir að hafa leikið hringina tvo á 5 höggum yfir pari. Ragnar lék á 3 höggum yfir pari í dag og var einungis höggi frá því að komast áfram.

Lokaúrtökumótið fyrir Nordic Golf mótaröðina fer fram dagana 10.-11. október.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.


Skorkort íslenska hópsins.

Icelandair - 21 jan 640
Icelandair - 21 jan 640