Fréttir

Ryan Palmer réttlætir ákvörðun sem gæti hafa kostað Steele sigurinn
Ryan Palmer
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 14. janúar 2020 kl. 13:00

Ryan Palmer réttlætir ákvörðun sem gæti hafa kostað Steele sigurinn

Ryan Palmer endaði í 4. sæti á Sony Open mótinu á Havaí um síðustu helgi. Á 18. holu var hann einu höggi á eftir efstu mönnum og eftir að hafa slegið upphafshöggið í brautarglompu þurfti hann að taka áhættu til þess að freista þess að ná sér í fugl eða betra.

Palmer reyndi því við að hitta flötina en það heppnaðist ekki betur en svo að boltinn skoppaði af stigatöflunni og út í rusl. Hann var þó viss um að finna boltann svo hann sló ekki varabolta úr glompunni. Boltinn fannst hins vegar aldrei og þurfti Palmer því að hlaupa aftur að glompunni til þess að taka víti. 

Þetta varð þess valdandi að Cameron Smith og Brendan Steele, sem voru í hollinu á eftir og að berjast um sigurinn, þurftu að bíða í 15 mínútur á meðan Palmer leitaði að boltanum og sló annað högg. Þeir höfðu áður beðið í 20 mínútur á teignum eftir að geta slegið upphafshöggið og því kominn ansi langur biðtími. Annað höggið misheppnaðist hjá þeim báðum, enda voru þeir líklegast aðeins búnir að missa einbeitinguna. Smith tókst að ná upp og niður fyrir fugli en Steele fékk par sem olli því að leika þurfti bráðabana sem kostaði hann sigurinn. 

Aðdáendur gagnrýndu margir hverjir Palmer fyrir að hafa ekki slegið varabolta og þannig valdið þessari miklu töf og mögulegu einbeitingarleysi. Palmer sagði þó að hann myndi gera það sama aftur og þegar einn Twitter notandi benti honum á að það væri í lagi að taka áhættu en hann hefði þá getað slegið varabolta tók Palmer fálega í það og sagðist ekki slá höggin fyrir hina.