Fréttir

Saga og Sigurður Bjarki Íslandsmeistarar í holukeppni
Saga og Sigurður Bjarki, Íslandsmeistarar í holukeppni 2022. Ljósmyndir/[email protected]
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 19. júní 2022 kl. 21:36

Saga og Sigurður Bjarki Íslandsmeistarar í holukeppni

Saga Traustadóttir úr GR og Sigurður Bjarki Blumenstein GR, sigruðu á Íslandsmótinu í holukeppni sem lauk á Hlíðavelli í Mosfellsbæ í dag.

Þetta var annar holutitill Sögu en hún vann fyrst 2019. Hún vann Pamelu Hjaltadóttur, GM, nokkuð örugglega í úrslitaleik en Pamela er mikið efni og aðeins 13 ára gömul, á fjórtánda ári. Saga var fjórar holur upp eftir níu og mest fimm upp eftir 11. holu en Pamela vann þrjár af næst fimm en síðasta holan féll og niðurstaðan því tveggja holu sigur hjá Sögu.

Í karlaflokki var hart barist hjá þeim Kristófer Orra Þórðarsyni, GKG og Sigurði Bjarka Blumenstein, GR. Þeir voru jafnir eftir 9 holur en fugl á 10. holu og örn á 12. holu hjá Sigurði komu honum í tveggja holu forskot sem Kristófer náði að minnka niður í eina holu en Sigurður náði annarri holu til baka og vann að lokum með tveimur holum, 2&1. Þetta er í fyrsta skipti sem Sigurður Bjari sigrar á mótaröðinni. 

Kristján Þór Einarsson, GM, varð þriðji í karlaflokki en hann vann Selfyssinginn Aron Emil Gunnarsson í leik um þriðja sætið 8&6. Í kvennaflokki varð Hafdís Alda Jóhannsdóttir, GK, þriðja eftir sigur á Árný Eik Dagsdóttur, GR, en sá leikur endaði á 19. holu.

Mótið í ár var það 35. í röðinni en keppt hefur verið um Íslandsmeistaratitla í holukeppni í karla – og kvennaflokki samfellt frá árinu 1988.

Kristófer, Sigurður og Kristján, þrír efstu í karlaflokki.

Pamela, Saga og Hafdís Alda, þrjá efstu í kvennaflokki.

Sigurður Elvar hjá Golfsambandi Íslands ræddi við Sögu og Sigurð að móti loknu.