Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Sömu forystusauðir að loknum öðrum keppnisdegi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 8. ágúst 2025 kl. 22:00

Sömu forystusauðir að loknum öðrum keppnisdegi

Logi Sigurðsson með frábærar seinni níu og kom sér í baráttuna

Veðurguðirnir létu aðeins finna sér í dag í Hvaleyrinni á öðrum degi Íslandsmótsins í golfi í dag en það kom ekki í veg fyrir að frábær skor sæjust inn á milli. Axel Bóasson úr Keili og Dagbjartur Sigurbrandsson sem er í GR, leiddu að loknum fyrsta degi, báðir á -5 en Axel gekk aðeins betur að eiga við vindinn í dag og spilaði á -2 en Dagbjartur var á -1.
Hjá konunum leiddu Hulda Clara Gestsdóttir og Karen Lind Stefánsdóttir, báðar í GKG, að loknum fyrsta degi, á -2 og Hulda skilaði sama skori í dag og leiðir á samtals -4 og er með 5 högga forskot á næsta keppanda, Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur, Keili.

Dagbjartur lék mjög vel til að byrja með í dag og var kominn á -4 á deginum að lokinni 10. holu og þ.a.l. á -9 í heildina en þurfti að gefa eftir með skolla á 12. holu og skramba (+2) á 17. holu. Axel var stöðugur, skilaði 5 fuglum í hús en þremur skollum og endaði því á -2 og leiðir eins og áður sagði, á -7. Sigurður Arnar Garðarsson úr GKG fyllir „Tiger-hollið“ á morgun en hann lék á parinu í dag og er á samtals -4.

GS-kylfingurinn Logi Sigurðsson gekk best að eiga við vindinn í dag og sérstaklega náði hann sér á strik á seinni níu, lék þær á -6 og lauk hringnum á 68 höggum eða -4. Hann var sá eini sem lék undir 70 höggum í dag.

Örninn 2025
Örninn 2025

Hjá konunum virðist Hulda Clara Gestsdóttir vera stinga af en hún hefur spilað mjög stöðugt og gott golf báða dagana. Hún lék báða hringi á -2 og er því á -4 og er sú eina af konunum sem sér mínus við skorið sitt. Guðrún Brá Björgvinsdóttir er í öðru sæti á +1. Mótið er hins vegar bara hálfnað og margt getur gerst á seinni tveimur dögunum. Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR kom sér upp í „Tiger-hollið“, lék á 74 í dag og er á samtals +5.

Veðurguðirnir ætla að hætta að kvelja kylfinga og áhorfendur á morgun og lofa minni vindi og má búast við frábærri skemmtun og spennandi móti á morgun og Kylfingur mun að sjálfsögðu halda áfram að vera með puttann á púlsinum.