Fréttir

Stofnaði tvær golf ferðaskrifstofur - hundruð erlendra kylfinga á leið til Íslands
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 6. mars 2023 kl. 14:03

Stofnaði tvær golf ferðaskrifstofur - hundruð erlendra kylfinga á leið til Íslands

„Hugmyndin að fá ferðamenn til að spila golf á Íslandi kviknaði þegar ég bjó út í Sviss og í Bandaríkjunum, þegar mínir erlendu vinir spurðu hvernig er hægt að vera golfari á Íslandi, en þá sýndi ég þeim myndir og myndbönd af golfi og golfvöllunum og þeir urðu mjög áhugasamir,“ segir Árni Hallgrímsson en hann hefur stofnað tvær golf ferðaskrifstofur. Önnur þeirra, www.golfexpeditions.is, sinnir útlendingum en hin eagle golfferðir býður upp á ferðir fyrir íslenska kylfinga til útlanda.

„Þegar ég vann hjá einni ferðaskrifstofu hérna heima fyrir tveimur árum fengum við nokkrar fyrirspurnir frá erlendum ferðaskrifstofum hvort hægt væri að smíða golfferðir á Íslandi, yfirmaður minn þá vildi ekkert með það hafa, en ég sá leik á borði og síðan þá hef ég hægt og rólega unnið að því að geta boðið uppá þannig ferðir. Ég hafði samband við Magnús Oddsson fyrrverandi ferðamálastjóra og núverandi stjórnanda Golf Iceland með þessa hugmynd og hann tók mjög vel í og sagði þetta vanta hérna heima, eftir það byrjaði boltinn að rúlla.

Vonda veðrið „frábært“

Fyrsta „prufu“ sumarið var í fyrra, 2022, en þá var ég með nokkrar golfferðir á Íslandi og gekk alveg ótrúlega vel. Ég var smá stressaður með veður faktorinn en það virtist ekki hafa áhrif á neinn útlendinginn. Nokkrir Frakkar spiluðu Korpuna einn daginn í 9 gráðum í biluðum vind og rigningu, ég hélt að þau myndu hætta eftir nokkrar holur en þau kláruðu Sjóinn/Áin á fimm klukkustundum. Þegar ég kom að þeim var ég með hangandi haus og spurði hvernig var, þau sögðu bara „FANTASTIC!“ með frönskum hreim og fannst frábært að koma úr hitabylgjunni í Frakklandi og spila hérna.

Önnur saga með nokkra Svía, en þeir komu frá Deloitte og höfðu heyrt margt spennandi með golfið á Íslandi, ég túraði með þeim og einn daginn spiluðu þeir Hvaleyrarvöll í sól og 20 m/s, á sama tíma logaði yfir Geldingardal sem sást frá Hvaleyrinni. Þeir hrópuðu á mig ofboðslega glaðir á níundu braut og spurður „What the **** is going on in this country?“

Týpíska ferðin er í rauninni eins og hver annar ferðamaður gerir, gullni hringurinn og það, nema við bætum við golfi. Að vísu er margt prívat og öðruvísi sem ég býð upp á í ferðunum,“ segir Árni en hvernig tóku golfklúbbarnir hér heim þessu framtaki?

„Þeir tóku mjög vel í þetta en að sjálfsögðu mun þetta mögulega vera fyrir traffíkinni í rástímana þar sem hér ríkir mikil golfsýki. Í dag er ég í góðu samstarfi við klúbbana og við vonum að þetta verði bara betra og betra og að samstarfið muni bara blómstra. Núna í ár á ég von á yfir 150 farþegum til landsins, en það eru einnig ferðir auglýstar hjá erlendum ferðaskrifstofum sem eru í sölu. Það eru einnig komnar fyrirspurnir fyrir árið 2024 og 2025 sem ég er líka að vinna í. Eins og staðan er núna þá eru viðskiptavinirnir aðallega frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Sviss, en þeir koma líka frá öllum hornum veraldar, Suður-Kóreu, Indlandi, Serbíu, Ítalíu og víðar.

Þetta virðist vera nýr og spennandi áfangastaður og fyrirspurnir hrannast inn. Ég efast ekki um að þetta verði bara vinsælla með árunum sem líða.“

Golfkennarinn og ferðaþjónusta

Árni er samhliða ferðaþjónustunni aðeins að kenna í golfi og er í PGA skólanum að læra golfkennarann. Árni segir að kennarastimpillinn skemmi ekki fyrir en hvað er framundan hjá þessum unga golfferða frömuði?

„Framundan eru margar ráðstefnur erlendis sem ég mun að sækja á, bæði til að auglýsa og ræða um golfferðir til Íslands, en einnig til að komast í gott samband við erlenda birgja til að halda golfferðir fyrir Íslendinga erlendis. Ég var með prufuferð til Cascais í Portúgal síðasta haust en þangað komu um 25 farþegar og gekk mjög vel nema veðrið var aðeins að stríða okkur. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og ákvað að gera meira svona. Í framhaldinu stofnaði ég Eagle Golfferðir. Sú ferðaskrifstofa mun fókusera á litlar ferðir út fyrir Íslendinga, ásamt því að bjóða upp á „pílagrímsferðir“ eða ferðir sem er bara farið einu sinni á mjög spennandi áfangastaði með takmarkað pláss í boði. Það eru ferðir til Pinehurst 2, Kiawah Island, Bay Hill og fleira,“ segir Árni.

Kiawah Island er magnaður golfvöllur.