Fréttir

Strákurinn ungi komst ekki áfram á Sanderson Farm Championship
Akshay Bhatia.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 21. september 2019 kl. 10:30

Strákurinn ungi komst ekki áfram á Sanderson Farm Championship

Bandaríkjamaðurinn ungi Akshay Bhatia keppti í vikunni á sínu fyrsta móti á PGA mótaröðinni sem atvinnukylfingur eftir farsælan feril undanfarin ár sem áhugakylfingur.

Búist er við miklu af Bhatia en hann var í fimmta sæti á heimslista áhugamanna áður en hann gerðist atvinnukylfingur á dögunum.

Því miður fyrir strákinn unga komst hann ekki í gegnum niðurskurðinn um helgina eftir að hafa leikið fyrstu tvo hringi mótsins á pari vallarins í heildina.

Bhatia lék fyrsta hringinn á tveimur höggum undir pari en var á tveimur höggum yfir pari á öðrum hringnum. Til þess að komast áfram hefði Bhatia þurft að leika að minnsta kosti þremur höggum betur.

Aðspurður um frammistöðu sína í mótinu gaf Bhatia sjálfum sér C.

„Í hvert skipti sem þú spilar á stærri vettvangi en þú ert vanur mun það hjálpa þér,“ sagði Bhatia. „Næsta vika er ný vika. Ég fæ annað tækifæri. Eins og ég sagði ef ég geri það sem ég þarf að gera og dræva aðeins betur þá get ég klárlega staðið mig hér, ég veit að ég get það.“

Næsta mót hjá Bhatia er Safeway Open mótið sem fer fram í næstu viku en hann fékk einnig boð á Shriners Hospitals for Children Open sem fer fram eftir tvær vikur.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af Bhatia frá því snemma á árinu þegar Bhatia var besti ungi kylfingur í heimi: