Fréttir

Sumarhúsa Flúða kylfingar kaupa Selsvöll og klúbbhúsið
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 24. janúar 2022 kl. 14:00

Sumarhúsa Flúða kylfingar kaupa Selsvöll og klúbbhúsið

„Það myndaðist rosaleg samstaða og hátt í tvöhundruð manns hafa skráð sig fyrir hlutum í nýju hlutafélagi sem mun tryggja áframhaldandi rekstur golfvallar og klúbbhús á Flúðum,“ segir Árni Tómasson, formaður Golfklúbbs Flúða í Hrunamannahreppi.

Félagar í klúbbnum eru 280 og hefur stór hluti þeirra ákveðið að standa saman að áframhaldandi rekstri á Flúðum en eigendurnir ákváðu á síðasta ári að láta gott heita og vildu selja til áhugasamra aðila. Formaðurinn kynnti málið fyrir félögum í klúbbnum og þá fór boltinn að rúlla. Félagar í Golfklúbbnum Flúðum eru nærri allir sumarbústaðaeigendur á svæðinu og hafa ákveðið að stofna nýtt hlutafélag, Golf-Sel efh. sem mun eignast golfvöllinn, klúbbhúsið og tilheyrandi starfsemi eins og veitingaþjónustu. Hátt í tvöhundruð manns hafa skráð sig fyrir hlutafé fyrir um 125 milljónum króna en nýja félagið mun greiða eigendum 150 milljónir króna fyrir völl og tengdar eignir.

Árni segir að stefnt sé að því að ná 130 milljónum, klúbburinn á um 20 milljónir þannig að dæmið sé að ganga upp til að greiða stofnendunum og núverandi eigendum. 

„Þetta er auðvitað alveg magnað og skemmtilegt. Við lögðum upp með það að það yrði enginn ráðandi í hluthafahópnum heldur gera þetta eign okkar allra. Það væri hagur allra. Lámarkshlutafé er 500 þúsund krónur en 495 þúsund af því er hluthafalán sem klúbburinn byrjar að greiða af eftir þrjú ár og borgar til baka á fimmtán árum. Vextir hafðir sanngjarnir,“ segir Árni sem hefur verið formaður klúbbsins síðustu sjö árin. Hann hefur verið í framlínu þessa verkefnis, lögfræðingurinn og kylfingurinn.

Árni segir metnað hjá nýjum eigendum að hækka „standardinn“ á vellinum en undanfarin ár hefur verið unnið við að gera völlinn betri, m.a. með gerð nýrra flata, um það bil einni á hverju ári. „Við horfum líka til framtíðar og höfum rætt við sveitarfélagið um að fá meira land meðfram ánni. Við höfum gengið frá samningum við nýja veitingaaðila í klúbbhúsinu, fólk með reynslu úr geiranum og svo erum við á lokaspretti að klára samning við nýjan vallarstjóra. Þá höfum við líka verið að gera upp klúbbhúsið. Það er mikill hugur í fólki enda er það hagur sumarhúsaeigenda á svæðinu að golfvöllur sé á svæðinu.“

Með fleiri framtíðarhugmynda er bygging hótels en á landinu er byggingaréttur fyrir hótel með frábæru útsýni og möguleikum og þannig gæti þetta orðið næsta golf-„rísort“ Íslendinga að sögn formannsins.

Rekstur golfvallar á Seli á Flúðum hófst þegar núverandi eigendur lögðu niður kúabú árið 1985 og byrjuðu að gera golfvöll. Selsvöllur hefur alla tíð verið vinsæll „sveita“-völlur en mikil aukning varð í aðsókn árið 2020 þegar hún jókst um 50%. Á síðasta ári þegar veðrið var ekki mjög gott um sumarið voru leiknir 12 þúsund golfhringir af félögum og gestum. Árgjald fyrir einstakling verður 79 þúsund kr. og hjónagjald 120-130 þúsund en það verður endanlega ákveðið á aðalfundi klúbbsins 4. febrúar næstkomandi. Þá verður nýtt hlutafélag líka staðfest. Nýtt golfár að hefjast og Flúða kylfingar spenntir fyrir framtíðinni.


Það hafa margir fengið sér ljúffenga pítsu og drykk í klúbbhúsinu við Selsvöll.



Á Selsvelli eru víða tré sem prýða völlinn og afmarka brautir. 


Níunda flötin hefur nýlega verið endurgerð. Í baksýn sést yfir á 8. braut sem er par 5.