Fréttir

Sunna upplifir atvinnumannadrauminn í gegnum eiginmanninn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 4. nóvember 2020 kl. 15:26

Sunna upplifir atvinnumannadrauminn í gegnum eiginmanninn

Sunna Víðisdóttir varð Íslandsmeistari í höggleik árið 2013 í einni mest spennandi keppni hjá kvenfólkinu í sögu Íslandsmótsins. Hún varð að hætta í golfi vegna þrálátra meiðsla í baki.

Sunna Víðisdóttir, Íslandsmeistari kvenna í golfi árið 2013 þurfti að hætta í golfi vegna meiðsla í baki. Hún vann titilinn þegar mótið fór fram á Korpúlfsstaðavelli og þurfti svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum því spennan var mikil og þurfti hún að fara í umspil og síðan í bráðabana til að tryggja sér sigurinn, sem hún gerði.

Sunna, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir voru jafnar eftir 72 holur. Í þriggja holu umspili datt Ólafía út og hinar tvær héldu áfram í bráðbana. Þar hafði Sunna betur. „Þetta voru skemmtilegir tímar. Ég fór til Bandaríkjanna í skóla árið 2012 og gekk vel í nokkur ár en fór fljótlega að finna til í bakinu og sá verkur fór aldrei. Áhuginn dvínaði í framhaldinu og það má því segja að golfferillinn hafi orðið að engu út af því,“ segir Sunna en hún er orðinn ráðsett ung kona, gift Viggó Kristjánssyni, atvinnumanni í handbolta hjá Stuttgart í Þýskalandi, þar sem þau búa.

Sunna útskrifaðist í maí 2016 og ákvað á þeim tíma að taka sér pásu og sjá til hvort bakið lagaðist ekki.  „Verkirnir fóru smám saman en áhuginn kom einhvern veginn aldrei almennilega aftur. Og í þau skipti sem ég fór að spila eða æfa þá stífnaði ég venjulega alltaf aftur upp í bakinu og þannig var erfitt að mótivera sig til að byrja aftur,“ segir hún en Sunna lék nokkrum sinnum með íslenska landsliðinu, m.a. á Smáþjóðaleikunum á Korpunni.

Flutt á milli handbolta-borga

Kærasti Sunnu, Viggó Kristjánsson og síðar eiginmaður hennar er núna í eldlínu handboltans í Þýskalandi. „Hann var búinn að bíða eftir mér á meðan ég var í Bandaríkjunum þannig að þegar hann fær tilboð um að fara til Danmerkur í atvinnumennsku í handbolta þá var kominn tími á að ég mundi hjálpa honum að elta sína drauma og við fluttum til Danmerkur sumarið 2016. Síðan þá erum við búin að flytja fjórum sinnum þegar hann hefur farið í ný lið og núna 5 árum seinna erum við í Stuttgart i Þýskalandi. Liðið spilar í efstu deild og hann er einn af markahæstu mönnum i deildinni. Þannig ég er svo sem að lifa atvinnumannadrauminn í gegnum hann.“

Viggó er líka landsliðsmaður og var með Íslandi á síðasta Evrópumóti og vakti þar athygli. Þegar þetta er skrifað er hann kominn til Íslands til að taka þátt í umspilsleik gegn Litháen vegna EM 2022. 

Og það urðu stór tímamót hjá litlu fjölskyldunni í fyrrasumar. „Við eignuðumst strák í fyrrasumar og höfum það rosa gott í Þýskalandi. Ég kláraði mastersgráðu á meðan við vorum í Danmörku og hef verið í fjarvinnu frá Íslandi síðan og svo auðvitað í fæðingarorlofi.“

Fylgist með stelpunum

Aðspurð um veiruna í Þýskalndi segir hún að það séu búnir að vera erfiðir tímar í Þýskalandi.

„Varðandi covid þá eru erfiðir tímar í Þýskalandi eins og allsstaðar. Búið að vera grímuskylda síðan í vor og við reynum bara að vera sem mest heima. Handboltadeildin var blásin af í lok mars og því engar æfingar eða neitt hjá manninum mínum í marga mánuði þannig það var skrítið að vera úti í Þýskalandi í rauninni „fyrir ekki neitt“ þar sem hann þurfti ekkert að mæta í vinnu.“

Sunna segist fylgjast með íslenskum kylfingum í fjarska, sérstaklega konunum. Þegar hún vann titilinn voru atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Valdís Þóra Jónsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, allar í toppbaráttunni. Lokakaflinn magnaður en á endanum voru þær Sunna, Ólafía og Guðrún Brá jafnar. Valdís Þóra missti af umspilinu með einu höggi.

„Ég fylgdist aðeins með Íslandsmótinu í sumar og síðan bara í fréttum og þá aðallega af stelpunum. Er siðan með Ólafíu, Valdísi og Guðrúnu Brá á Facebook þannig sé lika einhverjar fréttir af þeim þar.“

Sunna hefur á undanförnum árum búið í nokkrum borgum þegar Viggó hefur sinnt atvinnumennsku í handboltanum. Þau fluttu til Stuttgart í sumar og hafa þó ekki náð að njóta almennilega þessarar skemmtilegu borgar útaf Covid-19. „Við erum eiginlega búin að prófa allar tegundir borga og bæja núna í Þýskalandi. Bjuggum fyrst i Leipzig (sem er svipað fjölmenn og Stuttgart) en þá vorum við í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá miðbænum. Næst fluttum við í pínulítinn bæ sem heitir Lahnau og þar fengum við alvöru sveitafíling því þar var eiginlega engin þjónusta i göngufjarlægð en svo sem stutt að keyra í næsta bæ. Við bjuggum sem sagt þar þegar fyrsta covid bylgjan reið yfir, þannig að það var svo sem mjög hentugt og frábært uppá útiveru. Núna erum við síðan rétt fyrir utan Stuttgart. Við ákváðum að vera aðeins fyrir utan borgina þar sem vildum vera með garð fyrir strákinn okkar og vera á barnvænna svæði.“

Vinnur fyrir íslenskt fyrirtæki í fjarvinnu

Sunna er menntuð í tölfærði og hefur síðustu ár unnið fyrir tryggingafélagið TM. Hvernig finnst henni að vinna svona fjarvinnu í öðru landi?

„Það hefur sína kosti og galla. Það er auðvitað frábært að vera með vinnu sem ég get sinnt í fjarvinnu og þarf því ekki að vera að leita að og skipta um vinnu í hvert sinn sem við flytjum. Sérstaklega þar sem ég er mjög hrifin af þvi sem ég er að gera og líkar vel við samstarfsfélagana. En gallinn er auðvitað sá að þú ert oftast að vinna einn og vantar því félagsskapinn sem oftast fylgir,“ segir Sunna að lokum.

Með fréttinni er viðtal við Sunnu eftir að hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í höggleik 2013 og myndir úr umspilinu og bráðbananum.

Sunna og Viggó með Kristján Víði.

Með Íslandsbikarinn 2013 eftir sigurinn á Korpu.

Í umspilinu á Korpu.

Lokapúttið fyrir sigrinum 2013 í bráðabana gegn Guðrúnu Brá.

Sunna í sviðsljósinu á Íslandsmótinu á risaskjá í sjónvarpsútsendingu.