Svekkjandi eftir góða byrjun en tek margt gott með mér - segir Guðrún Brá
„Já, helgin var erfið. Völlurinn og aðstæður voru miklu erfiðari en fyrstu tvo dagana eins og sást á skorinu. Enn ég gaf of mörg högg frá mér og þessi niðurstaða þess vegna svekkjandi. En margt gott sem ég tek með mér yfir í næstu viku, sérstaklega fyrstu tvo dagana,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, en hún lék á sínu fjórða móti í röð á LET Evrópumótaröðinni, þeirri sterkustu í Evrópu.
Guðrún fékk góða heimsókn fyrir mótið í Þýskalandi í síðustu viku en foreldrar hennar lögðu undir sig betri fótinn og heimsóttu hana í baráttunni.
„Mamma og pabbi voru með mér þessa viku sem var mjög gaman. Pabbi var á pokanum og mamma labbaði með. Þau komu saman á mót hjá mér seinast árið 2018.
Næsta mót byrjar a fimmtudaginn í Írlandi og verður það 5 mótið í röð á 5 vikum,“ sagði Guðrún sem er í eldlínunni með bestu golfkonum í Evrópu. Hún var í toppbaráttunni eftir tvo daga í Þýskalandi en missti flugið á næstu tveimur.
Guðrún er með takmarkaðan þátttökurétt á LET og því skiptir frammistaða hennar í mótunum sem hún fær tækifæri í miklu máli.