Svíinn ungi á flugi
Ein af nýju verðandi stórstjörnum golfsins, Svíinn Ludvig Aberg, hefur komið eins og stormsveipur inn á PGA mótaröðina en hann fékk þátttökurétt á síðasta ári eftir góðan árangur í háskólagolfinu í Bandaríkjunum.
Aðeins tveir kylfingar hafa náð betri árangri á sínu fyrsta ári á mótaröðinni, þeir Rory McIlroy og Scottie Scheffler en sá síðarnefndi hefur verið efstur á heimslistanum í um ár.
Ludvig kemur á eftir þeim félögum í árangri á fyrsta keppnisári, m.a. í fjölda fugla og arna og eins í að hitta flatir í tilskyldum höggafjölda (GIR).
Hann sigraði á sínu fyrsta móti á PGA á síðasta ári og þá hefur hann tvívegis verið í topp 10 á nýhöfnu keppnistímabili og er sem stendur í 8 sæti í FedEx stigakeppninni. Þá sigraði hann einnig í fyrsta sinn á DP mótaröðinni í fyrra. Í tuttugu mótum á rúmlega hálfu ári á PGA hefur hann unnið sér inn tæplega 800 milljónir króna. Hann er í 11. sæti heimslistans en var í 903. sæti þegar hann gerðist atvinnumaður í júní 2023.
Aberg var valinn í Ryderlið Evrópu og stóð sig vel í sigri á Bandaríkjamönnum síðastliðið haust.