Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Tæland fagnaði sigri á GolfSixes mótinu
Thongchai Jaidee.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 8. júní 2019 kl. 21:36

Tæland fagnaði sigri á GolfSixes mótinu

GolfSixes mótið, eitt af aukamótum Evrópumótaraðarinnar, kláraðist í dag í Portúgal. Leikið var með töluvert óhefðbundnu sniði en mótið var liðakeppni þar sem 16 þjóðir tóku þátt og voru tveir kylfingar frá hverri þjóð saman í liði. 14 karlalið voru skráð til leiks og tvö kvennalið.

Mótið var leikið yfir tvo daga og fór riðlakeppnin fram í gær. Þar var búið að skipta liðunum niður í fjóra riðla og komust tvö stigahæstu liðin áfram í átta liða úrslit sem hófust í morgun.

Í átta liða úrslitum hafði England betur á móti Svíþjóð, 2-1, Ítalía vann Frakkland 2-1, Tæland hafði betur gegn Skotlandi 3-1 og að lokum þá vann Spánn, Ástralíu, 2-1. Í undanúrslitum mættust Englendingar og Ítalir og höfðu Englendingarnir betur 3-0. Hinn undanúrslitaleikurinn var Tæland á móti Spáni og hafði Tæland betur 1-0.

Úrslitaleikurinn var því milli Englands og Tælands og var það Tæland sem bar sigur úr býtum 2-1. Í leiknum um þriðja sætið hafði Spánn betur 3-0.

Í tælenska liðinu voru þeir Thongchai Jaidee og Phachara Khongwhatmai.