Fréttir

Taugarnar hjá Guðlaugi héldu - tryggði Esju titilinn
Sigurreifir Esju kylfingar. Guðlaugur er fjórði frá hægri.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 23. ágúst 2022 kl. 10:58

Taugarnar hjá Guðlaugi héldu - tryggði Esju titilinn

Golfklúbburinn Esja er Íslandsmeistari 2022 í flokki 50 ára og eldri á Íslandsmóti golfklúbba. Esja sigraði Golfklúbb Reykjavíkur í úrslitaleiknum í hörku viðureign 3-2. „Þetta tók á taugarnar en hafðist,“ sagði Guðlaugur Rafnsson, kylfingur í Golfklúbbnum Esju sem tryggði klúbbnum sigurinn á 20. holu í bráðabana gegn Guðmundi Arasyni en þeir voru jafnir eftir 18 holu leik. Leikið var á Hamarsvelli í Borgarnesi.

Báðir klúbbar voru búnir að tryggja sér tvo vinninga og eini leikurinn á vellinum var viðureignk Guðlaugs og Guðmundar Arasonar. Guðmundur lumar á meiri reynslu en Guðlaugur var tvær holur upp þegar tvær voru eftir. Taugarnar gáfu sig aðeins hjá Esju kylfingnum sem tapaði höggi á bæði 17. og 18. holu, hann þrípúttaði 7 metra á 18. flöt. Guðmundur, mun reynslumeiri kylfingur jafnaði leikinn. Í bráðabananum voru þeir félagar jafnir á 19. holu en á þeirri tuttugustu, stuttri par 3 braut á Hamarsvelli, sló Guðmundur í glompu og náði ekki pari. Guðlaugur var búinn að stilla taugarnar og sló inn á flöt og tryggði parið. „Þetta tók mikið á taugarnar að vera með mótið á bakinu en það hafðist sem betur fer,“ sagði Guðlaugur eftir mótið.

Þetta er annað árið í röð þar sem GR er í úrslitum. Í fyrra tapaði GR í spennandi leik gegn Keili þar sem Guðmundur Arason og Björgvin Sigurbergsson þurftu að fara 20 holur sem sá síðarnefndi vann. 

Golfklúbbur Akureyrar endaði í 3. sæti. 

Taugarnar voru þandar hjá Guðlaugi.

GR-ingar hressir þrátt fyrir tap í úrslitaleik annað árið í röð.